20. janúar til 6. maí 2018

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

ÞESSI EYJA JÖRÐIN

 

Claudia Hausfeld

Hallgerður Hallgrímsdóttir

Kristín Sigurðardóttir

Pétur Thomsen

Stuart Richardson

 

Þessi eyja jörðin fjallar um íslenska náttúru í ljósmyndalist samtímans. Eitt af undrunarefnum íslenskrar listasögu er að ljósmyndunin er eldri en málaralistin. Frá upphafi hefur landslagsljósmyndun verið ráðandi í íslenskri ljósmyndalist og gegnt því lykilhlutverki að kynna Ísland á alþjóðavettvangi og viðhalda þjóðernisvitund Íslendinga. Undanfarinn áratug hefur kvikmyndaiðnaðurinn sýnt ókunnuglegu landslaginu á Íslandi vaxandi áhuga, með augljósri tilhneigingu til að nota það sem baksvið fyrir sögur af ætt vísindaskáldskapar um geimferðir og framandi reikistjörnur. Það er kannski ekki að undra þar sem geimfarar frá Geimrannsóknastofnun Bandaríkjanna, NASA, æfðu sig í íslensku hrauni fyrir akstur á fjórhjólavagni á tunglinu. Það er því kannski engin tilviljun heldur að heiti sýningarinnar – Þessi eyja jörðin – er fengið frá gamalli Hollywoodkvikmynd úr flokki vísindaskáldskapar. Enda þótt atriðin frá reikistjörnunni Metalúnu hafi verið tekin upp í kvikmyndaveri, hefði allteins verið hægt að mynda þau á vettvangi úti í hrauni í útjaðri Reykjavíkur.

 

Verkin á sýningunni eiga sameiginlegt það ókunnuglega andrúmsloft sem ríkir í framtíðar- og furðusagnakvikmyndum. Í myndbandaröðinni Undirstraumi skráir Stuart Richardson landslagið í þröngum firði á Austurlandi þar sem eini ljósgjafinn er mjór geisli frá vita sem sópast yfir yfirgefið landið og birtir okkur leiftursýnir sem halda okkur í spennu gagnvart hinu óþekkta. Kristín Sigurðardóttir hefur skapað marglaga myndir í hinni nýju myndröð sinni G-3/ Guadrant Alpha 1, 30205. Hinar ókortlögðu lendur Mars eru hafðar að leiðarljósi fyrir mótaðar stemmningar byggðar á marglaga ljósmyndasamsetningum þar sem hinu kunnuglega er breytt í hið ókunnuglega. Claudia Hausfeld kannar holur og andstæður þeirra í verki sínu Fores út frá hugmyndinni um framandleika. Sú einangrun sem hún finnur til og stafar af hrjóstrugu landslagi umluktu úthafi – þessari eyju sem nefnd er Ísland – veldur innilokunarkennd sem jafnframt verður lykill að því að kanna skynjunina. Landslagsljósmyndun Péturs Thomsen sýnir okkur hvernig tíminn setur skáldlegt mark sitt á heiminn. Í myndröð Péturs Landnám blasir við áhorfandanum drungaleg sjón þar sem tilbúið ljós skapar ógnvænlegt andrúmsloft á svæðum sem mannshöndin hefur breytt. Hallgerður Hallgrímsdóttir fer með áhorfandann í dramatískt ferðalag á óþekktan stað í röð svarthvítra mynda sem ber nafnið Sprungur þar sem hún blandar saman dulrænni náttúru og sjálfsmyndum sem hún man varla eftir að hafa tekið. Hver listamaður beitir afar persónulegri aðferð sem skapar fjölbreytni í myndbyggingu og áferð. Samt má finna hliðstæður – og allir fimm listamennirnir kynna fyrir okkur listaverk sem eru prófsteinar á veruleikaskynjun okkar.

 

-Katrín Elvarsdóttir, sýningarstjóri

 

Frekari upplýsingar um sýninguna og sýnendur eru á heimasíðu Ljósmyndasafns Reykjavíkur

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

ÞESSI EYJA JÖRÐIN / This Island Earth

Gerðarsafn - Listasafn Kópavogs

Líkamleiki / Embody

 

 

Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni

Langa blokkin í Efra Breiðholti - David Barreiro

Fornar verstöðvar - Karl Jeppesen

 

Hafnarborg

Astrid Kruse Jensen

 

Ramskram

Beachhead / Strandhögg - Daniel Reuter

 

 

Listasafn Íslands

Elina Brotherus