Hafnarborg
Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun 
– III. hluti
Hallgerður Hallgrímsdóttir
22.1.2022
Það er svo auðvelt að taka mynd – bara að ýta á takkann – næstum objet trouvé, skjalfesting á fundarstað ljóseinda við sameindir. Á sama tíma er ljósmyndin leyndardómsfull og tilfinningarík, þar sem fagurfræði og innsæi leggja sitt á vogarskálarnar og vísindin eru aldrei langt undan. Þá hugsar listakonan um það hvernig við sjáum og setur það í samband við ljósmyndamiðilinn – hvernig þrívíð rými, hlutir og augnablik eru túlkuð í tvívídd. Verkin eru unnin með rúmsýn mannsaugans á heilanum, sem og vélanna sem maðurinn hefur hannað til að sjá og festa það sem þær sjá með hætti sem við skiljum. Að við teljum.

Hallgerður Hallgrímsdóttir er myndlistarkona sem vinnur mest með ljósmyndamiðlinn í sinni sköpun. Hún er með BA í myndlist með áherslu á ljósmyndun frá Glasgow School of Art og meistaragráðu í myndlist frá Akademin Valand í Gautaborg, þaðan sem hún lauk námi árið 2019. Verk hennar hafa farið víða og verið sýnd meðal annars í The Photographer’s Gallery í London, Hasselblad Center í Gautaborg, í Listasafninu á Akureyri, Listasafni Færeyja, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Listasafni Reykjavíkur. Ljósmyndabók Hallgerðar Hvassast kom út árið 2016 og svo 2018 gaf Pastel ritröð út ljóð-myndabókina Límkennda daga. Hallgerður býr og starfar í Reykjavík.

Sýningarstjóri er Unnar Örn Auðarson.