Um tíma – Dagbók tuttugu mánaða (2018-2020)
Haustið 2018 hóf Einar Falur skrásetningu sjónrænnar dagbókar sem hann hugðist þá ljúka á 18 mánuðum. En þegar hillti undir enda verksins þá skall á heimsfaraldur Covid-19 veirunnar og heimurinn breyttist. Ljósmyndarinn teygði þá dagbókina upp í 20 mánuði, þar sem faraldurinn hafði áhrif á fjölskyldu hans, eins og alla aðra, og varð mikilvægur þáttur dagbókarinnar.
Í þessari sjónrænu dagbók veltir Einar Falur fyrir sér lífi sínu og bakgrunni í samfélagi sem er ungt, fámennt og einsleitt, menningarlega og félagslega, og ber það á huglægan hátt saman við nokkra gamla og mikilvæga menningarkjarna sem um aldir mótuðu vestrænt samfélag, þar á meðal það íslenska. Hann kaus að starfa í Varanasi, elstu og helgustu borg Indlands þar sem hvarvetna má sjá og skynja þykk lög tímans; í Rómarborg á Ítalíu, þar sem evrópsk menning miðalda var á margan hátt mótuð, þar á meðal vestræn myndlist; og í Egyptalandi, þar sem enn fleiri menningarlegar rætur samtímans má finna, með endalausum tímalögum.
Verkið var skrásett með nokkuð hlutlægum hætti á stórformats myndavél en er hlaðið margskonar huglægum tengingum og persónulegri merkingu. Á ferðum sínum, jafnt um heimaland sitt sem í hinum löndunum þremur, leitaði Einar Falur markvisst í verk margra annarra listamanna, á í samtali við og vísar jafnvel í þau. Í Róm vann hann til að mynda markvisst út frá verkum málarans Caravaggios (1571-1610) og ljósmyndaranna Roberts Turnbull Macpherson (1814-1872) and Joels Sternfeld (b. 1944).
Samhliða því að mynda sjónrænu dagbókina setti Einar Falur saman og gaf hana út jafnt og þétt í 14 tölusettum bókverkum í litlu upplagi. Kjarni þeirra kemur saman í bókinni Um tíma – Dagbók tuttugu mánaða (About Time – Diary of Twenty Months) sem kemur í janúar 2022, samtímis því að fyrsta sýningin á verkefninu verður opnuð í BERG Contemporary í Reykjavík.
Þess má geta að þetta er önnur sjónræn dagbók tuttugu mánaða sem Einar Falur gerir á sínum ferli en árið 1994 sýndi hann í Artland í New York Diary of Twenty Months 1992-1994 en sýningin og stórt samnefnt bókverk var lokaverkefni hans í MFA-námi við School of Visual Arts þar í borg.