Gallery Port

Silfurbúrið/The Silvercage
Hjördís Eyþórsdóttir

518 aukanætur
Eva Schram
13.1.2022 - 10.2.2022
Silfurbúrið (The Silvercage) er nýjasta verkið eftir Hjördísi Eyþórsdóttur.
Verkið er óður til þorpsins þar sem ekkert gerist en allir hlutir hafa orðið til og tekst á við upphafið sem endalokin óhjákvæmilega hafa í för með sér. Leiðangur um síðustu klukkustundir myrkursins.
Sólarupprásin.
Þar sem rómantísk mynd þorpsins brotnar hægt niður í auðn, óveður og einveru.

“Sex ár í sjálfsskipaðri útlegð. Fimmtíuþúsund klukkutímar af fjöllum og eyjum. Á meðvituðum flótta frá borginni og ómeðvituðum flótta frá sjálfri mér, settist ég að í íslensku smáþorpi til þess að reyna að láta ókunnuga gleyma mér. Til þess að gleyma sjálfri mér, búa til nýja sjálfsmynd. Þar átti fegurðin að drekkja mér en í stað þess að drukkna í fegurð gerði ég dauðaleit að henni. Sjálfsmyndin bjagast og beyglast þegar kafað er ofan í hana. Eins og fjallið. Eins og fólkið. Eins og þorpið. Leitin að frelsi frá öllu endaði læst inni í búri. Því fjarlægðin gerir fjöllin blá en svo eru þau ekkert blá.”

518 aukanætur, Eva Schram

518 aukanætur eftir Evu Schram er röð ljósmyndaverka úr óbyggðum Íslands. Verkin eru unnin á úreltar filmur og útkoman er dularfullt landslag öræfanna sem virðist fjarlægt og ókennilegt en getur verið okkur nákomið um leið.

Verkið er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands og verður til sýnis í Gallery Port 13. janúar - 10. febrúar 2022.